Merkjamál hunda
Leiðin að samskiptum

Byggt að hluta til á grein Turid Rugaas „Calming signals; art of survival“
– birt með leyfi höfundar

Það er fátt jafn mikilvægt fyrir hundaeigendur að læra, en merkjamál hundsins. Með því að læra merkjamálið getum við komið í veg fyrir ýmsan algengan misskilning milli eiganda og hunds, aukið lífsgæði hundsins og átt í nánari og betra sambandi við hann. Það er líka nauðsynlegt fyrir hundinn að finna að eigandinn skilur hann og bregst við því sem hann er að segja. Það er einmitt það sem skiptir öllu. Að Þekkja, Skilja og kunna að Bregðast við merkjamáli hundsins. Hundar nota merkjamálið til að tjá sig við hvorn annan, okkur og annað í umhverfinu sem þeir telja að ógni sér. Þeir nota það til að róa aðra niður en ekki síður til að róa sjálfa sig niður.  Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á uppruna hundsins (sjá grein um uppruna hundsins seinna í bæklingnum) og má segja að nú sé horft til næsta ættingja hundsins, villta hundsins, í stað þess að einblína á úreltar rannsóknir á úlfum. Villtir hundar lifa saman í hópum og því er nauðsynlegt að geta tjáð sig og talað saman. Góð tjáskipti skipta miklu máli við veiðar, uppeldi afkvæma en kannski einna mikilvægast er að tjáskiptin hjálpa til við að halda friðinn innan hópsins. Átök geta verið hættuleg – þau orsaka líkamleg meiðsl sem veikir hópinn, sem hópurinn má oft ekki við því það getur leitt til þess að hann deyr út.

Hjá hundum skipta skynfærin öllu máli. Þeir átta sig á umhverfinu á sekúndu broti með því að nota sjónina, lyktarskynið og heyrnina. Þeir taka eftir smáatriðum sem fljóta framhjá okkur í amstri dagsins og lifa og hrærast í heimi skynfæranna. Sem dæmi um smáatriði sem hundar taka eftir þá geta þeir fylgt leiðbeiningum með því að horfa eftir því hvert við horfum! Þannig getum við bent þeim á að sækja hlut eða gera eitthvað með augunum einum saman! Þeir átta sig á smávægilegum hegðunarbreytingum eða leiftursnöggum boðum, það er því engin þörf á að öskra á hund eða breyta röddinni í djúpa og skipandi – eins og Karen Pryor segir; „Það er eins og að slá flugu með skóflu“.

Turid Rugaas er norskur hundaþjálfari sem hefur tileinkað lífi sínu hundum og er einn helsti talsmaður merkjamál hunda eða „róandi merkja“ (e. Calming signals). Hún telur að hundar hafi um 30 merkja-„orðaforða“ eða hugsanlega fleiri. Sum merki séu notuð af flestum hundum á meðan aðrir hundar hafi yfir fleiri merkjum að búa – það er einfaldlega misjafnt eftir hundum.

Samskiptaleysi eiganda og hunda

Hundar geta augljóslega ekki tjáð sig með orðum og nota því merkjamálið einnig í samskiptum við okkur mannfólkið. Það er einfaldlega eina tungumálið sem þeir þekkja og halda að allir skilji það.

 

Allan daginn er hundurinn þinn upptekinn af því að eiga í samskiptum við þig. Þeir sem ekki þekkja merkjamálið geta því, ómeðvitað, refsað hundinum sínum fyrir að tjá sig með merkjamálinu. Það getur haft virkilega slæmar afleiðingar í för með sér, jafnvel svo slæmar að hundurinn gefst upp á að nota merkjamálið í samskiptum sínum við eigandann og jafnvel aðra hunda, þá slökkva þeir á sér – verða þunglyndir. Sumir eigendur halda að hundurinn sé einfaldlega orðinn gamall eða rosalega hlýðinn en oft er það misskilningur. Hundurinn er einfaldlega búin að gefast upp. Aðrir geta orðið svo örvæntingafullir og pirraðir að þeir verða árásargjarnir, taugastrekktir eða stressaðir. Hvolpar og ungir hundar geta jafnvel farið í sjokk sökum þessa þegar þeir koma inn á nýtt heimili, burt frá móður og systkinum, og enginn virðist skilja þá! Það getur lýst sér í mikilli óæskilegri hegðun eins og að bíta í föt, naga húsgögn og taka „tryllinginn“ í göngutúrum svo fátt eitt sé nefnt.

Grunnþekking

Dæmisaga úr grein Turid Rugaas, „Calming signals, art of survival“; „Pabbi kallar á Prins og hefur lært það í hlýðninámskeiði að hann þarf að hljóma strangur og ríkjandi svo að Prins skilji hver ræður. Prins finnst röddin í pabba hljóma ógnvekjandi og þar sem hann er hundur sendir hann pabba róandi merki alveg um leið til að láta hann hætta að hljóma svona ógnvekjandi. Prins gæti t.d. sleikt útum upp á nef, geispað eða snúið sér frá honum – það orsakar það að pabbi verður virkilega reiður, því pabbi heldur að Prins sé þrjóskur og óhlýðinn. Prins er því refsað fyrir að notast við róandi merki til að róa pabba. Þetta er einkennandi dæmi fyrir eitthvað sem gerist á hverjum einasta degi hjá mörgum hundaeigendum.

Við þurfum að skilja tungumál hundanna svo við getum skilið hvað hundarnir eru að segja okkur. Þetta er leyndardómurinn að góðu lífi saman.“

Mjög mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að merki er alltaf svarað með merki – við getum gefið frá okkur merki án þess að gera okkur grein fyrir því – og hundurinn okkar mun svara.  Hundur sem geispar að öðrum hundi mun fá svar, hvort sem það er með geispi eða annarskonar merki. Við getum því notað merkin til að tjá okkur við hundinn okkar! Það er ekkert mál, prófaðu bara eftir lestur þessarar greinar Það besta við þessi merki er einnig það að merkin eru alþjóðleg og algild. Allir hundar um allan heim tala sama tungumálið. Hundur frá Japan mun skilja norskan elghund sem býr í einangruðum dal í Noregi. Þeir munu ekki eiga í neinum tungumálaörðugleikum!

 

 

Dæmi um merkjamál hunda

Geisp

Eitt algengasta merkið sem hundar gefa frá sér er að geispa. Hundurinn þinn tjáir sig með geispi til dæmis þegar einhver beygir sig yfir hann, þegar þú hljómar reiðilega, þjálfunartíminn er of langur, hann er spenntur yfir gestakomu og að reyna að róa sig niður, þegar þið farið til dýralæknis, þegar þið eruð á leið í göngutúr eða þegar rifrildi verða á heimilinu – og í ótal mörgum öðrum aðstæðum. Ef þú sýnir hundinum hegðun sem hann telur vera ógnandi (t.d. að ganga beint í áttina að honum, teygja sig í hann, beygja sig yfir, stara í augun á honum, skyndilegar eða mjög hraðar hreyfingar, hækkar róminn…) mun hundurinn svara þér með merkjamálinu og senda þér róandi merki.  

Allir hundar kunna öll merkin. Þegar einn hundur geispar og snýr höfðinu til hliðar, mun hundurinn sem hann er að „tala við“ til dæmis sleikja á sér nefið og snúa bakinu á móti hundum – eða gefa frá sér allt önnur róandi merki.

 

 

Sleikja/Sleikja útum

Að sleikja útum er merki sem hundar nota mikið. Það er sérstaklega notað af svörtum hundum, hundum með mikið andlitshár og hundum sem einhverra hluta vegna er erfiðara að átta sig á svipbrigðum þeirra en ljósari hunda, hunda sem auðvelt er að sjá í augun á og hunda með langt trýni. En allir geta notað þetta merki, að sleikja út um og allir hundar skilja það, sama hversu hratt það gerist.  Það er auðveldara að sjá hund sleikja hratt út um ef þú horfir beint framan á hann. Það sést best ef þú getur einhversstaðar setið í ró og næði og fylgst með. Þegar þú hefur lært að sjá þetta merki, getur þú einnig séð það þegar þú ert úti að labba með hann. Stundum er þetta ekki neitt meira en bara snöggt merki, tungubroddurinn sést varla út fyrir munninn og þá einungis í sekúndubrot. En aðrir hundar sjá það, skilja og svara því.                         Öllum merkjum er svarað með merkjum.

 

Að snúa frá/Snúa höfðinu

Hundur getur snúið höfðinu smávægilega til einnar hliðar, snúið höfðinu algjörlega til hliðar eða snúið líkama algjörlega frá þannig að bak og skott snýr að áreitinu. Þetta er það merki sem þú sérð líklegast oftast. Þegar einhver nálgast hundinn þinn í beinni sjónlínu, sérðu eitthvað af þessum merkjum. Þegar þú virðist vera reiður, árásargjarn eða hótandi, munt þú líka sjá einhverja útgáfu af þessu róandi merki. Þegar þú beygir þig yfir hundinn til að klappa hundinum mun hann snúa höfðinu frá þér. Þegar þjálfunartíminn ykkar er orðinn of langur eða of erfiður sendir hundurinn þér þetta merki. Ef hundinum bregður mun  hann strax senda þetta merki og einnig ef hann kemur einhverjum að óvörum. Það sama gerist ef einhver starir eða hegðar sér ógnandi.  

 

 

 

Leikstellingin

Að beygja sig fram á framfæturnar og setja rassinn upp í loftið getur verið boð um leik, ef að hundurinn hreyfir fæturnar til hliðanna í leikgleði. Oft gerist það að hundur er grafkyrr í þessari stellingu og þá er hann að senda róandi merki til annars hunds. Þetta merki hefur oft tvöfalda merkingu og geta verið notuð í mörgum mismunandi útgáfum – oft er boð í leik notað sem róandi merki því þá er hundurinn að breyta andrúmsloftinu úr hugsanlegri ógnun yfir í léttari og leikglaðari andrúmsloft.

Í einu hvolpanámskeiðanna með hóp af hvolpum, var einn þeirra hræddur við hina hundana til að byrja með. Hinir létu hann í friði og virtu hræðslu hans. Þegar leið að lokum tímans þorði hann að færa sig aðeins nær hópnum, en um leið og einhver leit á hann skellti hann sér niður í leikstellinguna og var grafkyrr. Það var augljóst að hvolpurinn vildi taka þátt í leiknum, en þorði það ekki alveg.

Þegar tveir hundar nálgast hvort annan of hratt, sér maður þá oft fara í leikstellinguna. Þetta er eitt af þeim merkjum sem auðvelt er að sjá, sérstaklega þar sem þeir stoppa í
stellingunni í nokkrar sekúndur svo þú hefur nægan tíma
til að skoða hana.

 

Þefað af jörðinni

Að þefa af jörðinni er mikið notað merki. Í hvolpahóp sérðu þetta vel,  þegar þú ert úti á göngu með hundinn þinn og einhver kemur á móti ykkur, á stöðum þar sem mikið er í gangi, á háværum stöðum eða þegar hundurinn sér hlut sem hann áttar sig ekki á og þykir vera ógnun.

Að þefa af jörðinni getur verið allt frá því að hreyfa nefið hratt niður að jörðinni og aftur upp eða að hreinlega stinga nefinu niður í jörðina og þefa ákaft í nokkrar mínútur.

Er einhver að nálgast ykkur á gangstéttinni? Horfðu á hundinn þinn? Skellti hann nefinu niður í jörðina, jafnvel bara smá? Snéri hann hliðinni að einstaklingnum og þefaði lítillega að jörðinni?

Auðvitað þefa hundar mikið, þannig „lesa þeir blöðin“ og njóta þess að vera til. Hundar eru forritaðir til að nota nefið og það er þeirra uppáhaldsiðja. Hinsvegar er það stundum róandi merki, það fer allt saman eftir aðstæðum. Þannig að fylgdust með hvenær og í hvernig aðstæðum þefið á sér stað!

Að labba lötur hægt

Mikill hraði getur verið ógnandi fyrir marga hunda, og þeir vilja oft stökkva til og stöðva þann sem er að hlaupa. Þetta er að hluta til veiðieðli sem kviknar þegar hundurinn sér manneskju eða hund hlaupa. Ef sá sem hleypur, kemur beint í áttina að hundinum felur það í sér ógnun og það kviknar á varnareðlinu.

Hundur sem er óöruggur hreyfir sig lötur hægt.  Ef þú vilt auka öryggistilfinningu hundsins getur þú hreyft þig lötur hægt. Þegar ég sé hund bregðast við mér með því að senda mér róandi merki bregst ég við því um leið með því hægum hreyfingum.

Kemur hundurinn þinn afskaplega rólega til þín þegar þú kallar á hann? Ef svo er, athugaðu þá tóninn í röddinni þinni – hljómar þú strangur eða reiður? Það getur verið nóg fyrir hann vilja að þú róir þig niður, og því sendir hann þér merki með því að hægja á sér. Hefur þú einhverntímann tekið reiðilega á móti hundinum? Það getur valdið því að hann treystir þér ekki og hægir því á sér. Önnur ástæða fyrir því að hundinum finnst hann þurfa að róa þig niður getur verið að þú setur hundinn alltaf í taum þegar hann kemur. Fylgdust með hundinum næst þegar þú kallar á hann. Sendir hann þér einhver róandi merki meðan hann kemur til þín? Ef hann hægir á sér, þarftu hugsanlega að breyta þinni hegðun.

 

Að stirðna upp – frjósa

Við köllum það „að frjósa“ þegar hundur stoppar og er algjörlega grafkyrr annað hvort standandi, liggjandi eða sitjandi og heldur sér í þeirri stöðu. Þessi hegðun er talin tengjast veiðieðlinu. Þegar bráðin er á fullri ferð, ræðst hundurinn á hana. Þegar bráðin er kyrr, stoppar hundurinn líka. Við sjáum þessa hegðun oft þegar hundar elta ketti. Þessi hegðun er hinsvegar notuð í nokkrum misjöfnum aðstæðum. Þegar þú verður reið(ur) eða sýnir árásargirni og virðist ógnandi, mun hundurinn stirðna upp og standa graf kyrr í þeim tilgangi að gera þig góða(nn) á ný. Stundum getur hundurinn hreyft sig lötur hægt, stirðna upp, og svo hreyfa sig aftur lötur hægt. Sumir eigendur halda að þeir eigi hunda sem eru alveg ótrúlega hlýðnir og sitja, standa eða liggja algjörlega grafkyrrir. Kannski eru þeir einfaldlega að senda frá sér róandi merki? Mjög oft stoppar hundur og heldur sér rólegum meðan einhver nálgast. Ef hundurinn þinn vill stoppa og/eða hreyfa sig rólega í aðstæðum sem þessum, leyfðu honum það. Ef að hundur lendir í átökum við annan hund eða mann, getur eina leiðin út úr átökunum verið að stirðna upp og standa grafkyrr.

 

Að setjast eða lyfta upp einni loppu

Ég ef ekki oft séð hund senda róandi merki með því að lyfta upp loppu, en þegar það á sér stað er það augljóslega til að róa niður annan hund. Að setjast niður, eða það sem augljóslegra er, að setjast niður og snúa bakinu að einhverjum, til dæmis eigandanum, hefur mjög róandi áhrif. Það sést oft þegar hundur vill róa annan hund sem nálgast á óþægilega miklum hraða. Hundur sest niður og snýr bakinu að eigandanum ef að eigandinn hljómar strangur eða reiður.

 

Að beygja á göngu / taka sveig

Þessi hegðun er oft notuð sem róandi merki og er ein af megin ástæðum þess að hundar bregðast svo sterklega við því að hitta aðra hunda þegar þeir eru neyddir til að ganga beint í áttina að einhverjum. Eðli þeirra segir þeim að það sé rangt að nálgast einhvern á þennan hátt – en eigandinn segir annað. Hundurinn verður kvíðinn og fer í vörn. Þar af leiðandi fáum við hund sem geltir og veður í aðra hunda, og á endanum höfum við árásargjarnan hund.

Ef hundar fá tækifæri til, taka þeir sveig framhjá hver öðrum. Það er það sem þeir gera þegar þeir hittast án þess að vera í taum og geta gert það sem þeir vilja og er þeim eðlislægt. Leyfðu hundinum að gera slíkt hið sama þegar hann er með þér.

Sumir hundar þurfa að taka stóran sveig, meðan aðrir þurfa bara að ganga í smá sveig. Leyfðu hundinum að ákveða hvað hann sjálfur vill gera og hvað honum finnst vera öruggt. Þegar fram líða stundir getur hann lært að mæta hundum af meiri nálægð.

Leyfðu hundinum að ganga í sveig  í kringum hund sem þeir eru að hitta. Ekki neyða hann til að vera í hælstöðu meðan þú arkar beint af augum – gefðu honum tækifæri til að ganga í sveig fram hjá hundinum þegar þið mætist. Ef þú slakar á taumnum og leyfir hundinum að ákveða, sérðu að oftar en ekki kýs hann að ganga í sveig í stað þess að verða æstur.

Af sömu ástæðu, ekki ganga beint á móti hundi, gakktu í sveig. Því ákafari eða árásargjarnari hundurinn er, því stærri sveig tekur þú.

Önnur róandi merki

Nú hefur þú lesið þér til um þau róandi merki sem algengust eru. Það eru um þrjátíu merki og ekki gefst tækifæra til að lýsa þeim öllum hér. Ég mun minnast stuttlega á nokkur í viðbót svo þú getir skoðað þau nánar við gott tækifæri.

  • Að brosa: Annað hvort með því að lyfta munnvikunum upp og aftur, en með því að sýna tennur eins og glott.
  • Hrista sig
  • Skella saman vörum svo að glamrar í.
  • Dilla skottinu: Ef hundur sýnir einhver merki um kvíða, hræðslu eða eitthvað sem greinilega er ekki hægt að tengja við hamingju, er það að dilla skottinu ekki merki um gleði heldur að hundurinn vill róa þig.
  • Að pissa á sig: Hundur sem hniprar sig saman, skríður til eigandans og pissar á sig um leið sýnir þrjú greinileg róandi merki – og merki um hræðslu.
  • Að vilja komast að andlitinu á þér og sleikja munnvikin á þér
  • Að gera höfuðlagið hringlaga og slétt með eyrun lögð algjörlega aftur er tilraun hundsins til að líta út eins og hvolpur, því enginn meiðir jú hvolp, trúir hundurinn.
  • Leggjast niður með magann fast við jörðina. Þetta hefur ekkert með undirgefni að gera. Að leggjast niður með magann upp í loftið er undirgefni, þetta er róandi merki.

Það eru fjölmörg önnur merki sem eru notuð í bland við önnur. Sem dæmi getur hundur pissað um leið og hann snýr bakinu að áreitinu. Þetta er greinilegt róandi merki til dæmis til pirrandi, fullorðins hunds.

Sumir hundar haga sér eins og hvolpar, hoppa og láta eins og vitleysingar, henda spýtum um allt ofl ef þeir uppgvöta að það er hræddur hundur nálægt. Það á að hafa, og hefur, róandi áhrif á hrædda hundinn.

Að hitta annan hund

Aðstæður sem kvikna upp þegar tveir ókunnir hundar hittast munu nánast aldrei sýna sterk merki um undirgefni eða það sem fólk talar um sem ríkjandi hegðun (dominant behaviour). Aðstæður þar sem tveir ókunnir hundar hittast er vanalega eitthvað á þessa leið:

King og Prins sjá hvorn annan í 150metra fjarlægð og nálgast hvorn annan. Þeir byrja að senda hvor öðrum róandi merki um leið og þeir sjá hvorn annan. Prins stoppar og stendur kyrr („frýs“) og King gengur rólega meðan hann lítur laumulega á hinn hundinn.
Þegar King kemur nær byrjar Prins að sleikja út um og upp á nef um leið og hann snýr andlitinu frá King og þefar af jörðinni um leið. Núna er King komin það nálægt að hann þarf að gefa frá sér enn frekari róandi merki, svo hann byrjar að taka sveig frá Prins rólega, og nú sleikir hann einnig út um. Prins sest niður, og lítur bur frá King með höfuðið snúið langt til annarra hliðar.

Þegar hér er komið við sögu hafa báðir hundar „lesið“ hvorn annað það vel að  þeir vita hvort það er í lagi að heilsast eða hvort aðstæður gætu orðið það ákafar að betra sé að halda fjarlægð.  


Neyddu hunda aldrei til að hittast

Leyfðu hundum að nota þeirra eigið tungumál þegar þeir hittast svo þeir séu öryggir. Stundum ganga þeir beint um að hvor öðrum og allt gengur vel, stundum finnst þeim öruggara að halda sér í fjarlægð – eftir allt saman þá hafa þeir nú þegar lesið í merkin hjá hvor öðrum. Þeir lesa í merkin í marga metra fjarlægð, það er enginn þörf á því að hittast í návíg.

 

 

Að lokum

Hundaþjálfarar í Kanada sem komu á fyrirlestur hjá mér, stungu upp á nýju orði fyrir róandi merkin: „tungumál friðar“. Það er nákvæmlega það sem þetta er. Þetta er tungumál sem er til staðar til að tryggja frið og svo hundar hafi leið til að forðast og leysa átök og lifa saman á friðsaman hátt. Hundar eru snillingar í því.

Farðu að fylgjast með og þú sérð þetta sjálf(ur). Líklegast munt þú þar að auki ná mun betra sambandi við hundinn þinn og aðra hunda líka, þegar þú ert farin(n) að átta þig á því hvað hundurinn er í raun og veru að segja þér. Það er líklegt að þú skiljir hluti sem þú áður fyrr gerðir þér ekki grein fyrir. Þetta er ótrúlega spennandi, en líka fræðandi.

Velkomin(n) í heim hundsins, og velkominn í heim nýs tungumáls!

  • Turid Ruugas
Merkjamál hunda