Gott að eiga fyrir nýja fjölskyldumeðliminn

hundar@hundastefnan.is

Þegar hvolpur bætist við heimilishaldið fylgir honum ýmsir nauðsynlegir hlutir sem gott er að útvega áður en hann kemur eða fljótlega eftir komu hans. Hérna eru nokkur atriði sem nauðsynlegt er að hafa við hendina þegar fjórfætti félaginn mætir á svæðið.

  1. Járnbúr/plastbúr: Ekki allir hafa hugsað sér að búrvenja hvolpa en kostirnir við að búrvenja þá eru miklir – sérstaklega þar sem búrið veitir þeim öruggt skjól frá utanaðkomandi áreiti og gerir öll ferðalög auðveldari og öruggari.

 

  1. Matardallur/Vatnsdallur: Mikilvægt er að kaupa matardalla og vatnsdalla í réttri stærð með tilliti til stærðar hundsins þegar hann er orðinn fullvaxta. Ekki skiptir miklu máli hvort dallarnir eru úr plasti, keramiki eða stáli. Best þykir mér þó að þeir séu með gúmmi kant eða gúmmi mottu undir til að koma í veg fyrir að þeir þjóti um húsið á matmálstímum. Ekki er verra að hafa vatnsdallinn stærri en matardallinn.

 

  1. Hálsól: Hálsólin þjónar þeim mikilvæga tilgangi að geyma skráningarplötu og upplýsingar um eiganda hundsins, svona ef hann skyldi týnast. Persónulega nota ég hálsólar aldrei í göngutúrum þar sem þær hafa slæm áhrif á háls-svæði hundsins. Hálsólina er hægt að nota í neyð ef hundurinn sleppur og nauðsynlegt reynist að ná taki á honum. Einnig er í lagi að nota hana styttri vegalengdir, eins og til dæmis út í bíl.

 

  1. Beisli: Í stað hálsólar kjósa sífellt fleiri að nota einhvernskonar göngubeisli. Þegar þú velur beisli á hvolpinn skaltu velja það sem passar í minnstu stillingunni eða eins stuttri stillingu og mögulegt er. Þannig mun beislið stækka með hundinum, en þetta á sérstaklega við um stærri tegundir.

 

 

  1. Taumar: Best er að eiga nokkra tauma sem hægt er að grípa í þegar þess þarf. Mér finnst gott að hafa einn taum undir sætinu í bílnum eða hliðarvasanum því það er aldrei að vita nema það komi sér vel einn daginn. Léttur, meðfærilegur  taumur í þægilegri og viðeigandi stærð (þykkt taumsins og stærð smellunnar skiptir máli) ásamt góðri lengd eru bestu kaupin. Ekki kaupa taum sem er undir 1,5m á lengd og best er að eiga einn 1,5m annan 3m og jafnvel einn enn lengri (5-8m) fyrir könnunarleiðangra hundsins. Ekki kaupa Flexi-taum nema til að nota í neyð/hallæri. Slíkir taumar eru hannaðir til að vera alltaf strekktir sem setur spennu á líkama hundsins. Það getur mögulega orsakað hegðunarvandamál auk þess sem Flexi hefur skaðað bæði hund og eiganda vegna þess hve mjó línan er. Skiptarskoðanir eru á Flexi-taumum svo skoðaðu málin vandlega.

 

  1. Bæli:  Allir hundar þurfa hrein og þurr bæli til að sofa í. Bestu bælin eru þau sem auðvelt er að þvo, kosta ekki mikið og þú munt ekki sakna þó hvolpinum detti í hug að tæta það í ræmur meðan þú ert ekki heima.  Gott er að eiga eitt eðal-bæli en flísteppi úr rúmfatalagernum hafa virkað vel heima hjá mér.  Hafðu bæli í öllum helstu herbergjum hússins sem fjölskyldan dvelur mest í því þá mun hvolpurinn alltaf hafa sinn samastað. Ekki færa bælin mikið á milli staða heldur reyndu að halda reglu á því hvar þau eru.  Hafðu í huga hvar þú staðsetur bælin í herberginu, horn eru fullkominn staður fyrir bæli.

 

  1. Nagbein: Og nóg af þeim!! Á næstu vikum og mánuðum er hvolpurinn þinn að ganga í gegnum tanntöku tímabil sem reynist þeim bæði erfitt líkamlega og andlega. Þeir sem þekkja til ungbarna á þessu timabili vita að því fylgir mikill kláði, vanlíðan og grátur. Láttu það því ekki koma þér á óvart þó hvolpurinn þinn taki tímabil þar sem hann þarf mikla athygli og umönnun af þinni hálfu. Þetta er einmitt tíminn til að fjarlægja allt sem hann má ekki naga því ef hann nagar eitthvað sem ekki mátti er það þér að kenna – ekki honum! Hvolpurinn gerir sér ekki grein fyrir því á þessum aldri hvað er hans og hvað er þitt, og því er nauðsynlegt að skipta út óviðeigandi „nagdóti“ fyrir rétt dót eða bein. Hafðu nagdót alltaf við höndina og gott getur verið að bleyta hnútakaðall upp í kjötsoði og skella svo í frysti. Þá kælist kaðallinn niður og verður að bragðgóðu, kælandi nagdóti fyrir hvolpinn.

 

  1. Leikföng: Líkt og nagdót, þurfa góð og örugg leikföng að vera til staðar. Reyndu að sneiða framhjá leikföngum sem ýlir eða tístir í því það getur haft slæm áhrif á hundinn. Veldu frekar þroskandi leikföng eða dót sem hann getur sjálfur sveiflað til og frá. Haltu boltaleikjum í lágmarki en þeir geta aukið magn streituhormóna í líkamanum sem getur leitt til áráttu- og þráhyggjuhegðunar. Gott er að kaupa nokkur þroskaleikföng eins og til dæmis Kong eða þar sem hann þarf að leysa þrautir til að ná í nammi. Til eru boltar sem þarf að rúlla eftir gólfinu svo nammi detti út, þeir eru mjög þroskandi og krefjast yfirvegunar af hálfu hundsins. Hvolpur á ALDREI að vera með leikföng eftirlitslaus! Stærð hundsins skiptir máli þegar þú velur leikfang, því ef leikfangið er of lítið eða með smáhlutum sem geta losnað af getur það skapað hættu fyrir hundinn. Rétt leikfang í réttri stærð skiptir því höfuðmáli. Reyndu að komast að því hvaða leikfang er eftirlætis leikfangið hans. Taktu það til hliðar og notaðu við æfingar og þjálfun sem verðlaun.

 

  1. Merkispjald: Það er mikilvægt að hvolpurinn fái fljótt merkispjald á hálsólina sína, jafnvel þó þú sért ekki búin(n) að skrá hann.  Á spjaldið skaltu skrifa nafnið hans, símanúmerið þitt og jafnvel heimilsfang ef þér finnst það viðeigandi. Merkispjöld getur þú látið gera í Dýralandi fyrir u.þ.b 1200kr.

 

  1. Feldvörur: Sumar tegundir þarf strax að byrja að kemba og þvo eins og til dæmis poodle og cocker spaniel. Það er því nauðsynlegt að kaupa góða greiðu en líka svokallaðann „slicker“ sem hægt er að nota yfir allan feldinn. Gott getur verið að kíkja í heimsókn á hundasnyrtistofu og fá ráð um hvað skal kaupa. Sjampó og hárnæring getur stundum reynst nauðsynlegt og gott er að eiga hundasjampó. Varastu þó að baða hvolpinn þinn of oft því það getur dregið úr eðlilegri hreinsun líkamans.
Nýr hundur, hvað þarf að eiga?