Er eitthvað í fari hundsins sem dregur úr lífsgæðum hans eða gleðinni hjá þér yfir því að eiga hund?

Þessi ráðgjöf er sniðin að þörfum hvers hunds og eiganda fyrir sig. Líðan og velferð hundsins er alltaf höfð í fyrirrúmi og eigendum hjálpað að skilja hundinn sinn og eiga samskipti við hann, frekar en að skipa fyrir.

Við gefum þér verkfæri til að hjálpa hundinum þínum að yfirstíga vanlíðan sína, bæta hegðun, auka rökhugsun og bæta samskipti ykkar á milli. Við kennum ykkur að þekkja, skilja og bregðast við því merkjamáli sem hundurinn sendir ykkur.

Við kennum ykkur að stíga í fótspor ferfætta félagans, skilja lífið frá sjónarhorni hundsins og vera þannig tilbúnari til að gera málamiðlanir og finna lausnir sem henta öllum aðilum, líka hundinum!

Markmið okkar er að heimilishundurinn þinn verði að rólegum, yfirveguðum félaga sem er gott að deila lífinu með.

Hvernig fer ráðgjöfin fram?

  1. Þú (eða hundurinn) fyllir út eyðublaðið hérna fyrir neðan. Við sendum ykkur svo póst við fyrsta tækifæri.
  2. Hundaþjálfari frá Hundastefnunni kemur heim til ykkar í 1-2klst heimsókn, kynnist þér og hundinum, skoðar aðstæður heima fyrir og athugar hvort að þar sé eitthvað sem betur má fara. Farið er yfir merkjamál hunda og hvernig við getum notað þau í daglegum samskiptum við hundinn. Eigandi fær hagnýt ráð varðandi hundinn sinn, hvort sem er að ræða innandyra eða utan.
  3. Þú færð sendan tölvupóst með punktum úr heimsókninni 1-5 dögum eftir ráðgjöfina þar sem farið er yfir þau ráð sem komu fram í ráðgjöfinni. Ef nánari útskýringa er þörf er sjálfsagt að hringja í hundaþjálfarann sem kom til þín.
  4. Að 4-6 vikum liðnum sendir þjálfarinn þér aftur póst og bókar næstu heimsókn. Þá er fundinn tími þar sem þið hittist og farið yfir hvernig hefur gengið, hvað það er sem þurfi að breyta og/eða bæta og hvað það er sem þarf að vinna betur í. Ef allt hefur gengið að óskum, er þessi tími notaður í að fara í lífsleiknigöngutúr, unnið með taumsambandið, ykkur kenndir skemmtilegir leikir til að fara í með hundinum eða annað sem þið óskið eftir.
  5. Þegar 2-4 vikur eru liðnar frá síðasta fundi hefur þjálfarinn aftur samband við þig og bókar þig í símatíma. Í símatímanum er farið yfir ráðgjöfina og skoðað hvort að frekari eftirfylgni sé þörf. Ef þið teljið að þörf sé á áframhaldandi vinnu með ykkur og hundinum eru næstu skref skipulögð í símatímanum.

Hafir þú eða hundurinn þinn þörf á slíkri ráðgjöf fylltu þá út spurningarlistann hér að neðan og við höfum samband við fyrsta tækifæri: 

Ráðgjöfin kostar: 25.000kr m/vsk – innifalið í verði eru 2 heimsóknir, 1 símafundur og öll tölvupóstsamskipti á því tímabili sem ráðgjöfin stendur yfir. Fræðsluefni er einnig afhent í ráðgjöfinni eða í gegnum tölvupóst eftir heimsókn. Athugið að stéttarfélög taka þátt í kostnaði. Athugið að möguleiki er á áframhaldandi aðstoð sé þess óskað.

Það er mjög mikilvægt að eigendur líti á ráðgjöfina og þá vinnu sem framundan er  með hundinum, sem langtímaverkefni. Ef hegðunarvandi hefur verið til staðar lengi er fyrsta skrefið að sjálfsögðu að takast á við vandann en það þarf að gera með þarfir hundsins í huga, ekki síður en eigandans. Eigendur þurfa í flestum tilfellum að breyta sjálfum sér og umhverfinu frekar en hundinum. Með eftirfylgninni er ólíklegra að upp komi misskilningur milli hundaþjálfara og eigenda, ásamt því að stuðningur við eigendur og hund er mun meiri en þegar bara um eitt skipti er að ræða.