Val hundsins 
 – Gerður Björk – 

Öll eigum við það sameiginlegt að vilja hundinum okkar allt það besta og að veita honum fullnægjandi og innihaldsríkt líf.
Hérna eru nokkrar hugmyndir um hvernig þú getur auðgað líf hundsins þíns og gefið honum
valið. Um leið ertu að byggja upp og styrkja sjálfstraust hundsins þíns með því að leyfa
honum að ákveða.

Þegar þú ferð og velur bein handa hundinum þínum að naga gætir þú keypt nokkrar
tegundir sem eru með mismunandi bragði, áferð og mismunandi í laginu.
Þegar þú gefur hundinum svo beinið gætir þú t.d. kallað hann til þín og sett 2-3
mismunandi bein á gólfið og leyft honum að velja hvað hann langar í.
Hin beinin sem hann velur ekki fara svo bara í geymslu þar til næst. Með þessu móti
fær hundurinn þinn að taka sjálfur ákvörðun um hvaða bein hann kýs að fá sér þann
daginn.

Þegar farið er í gönguferðir með hundinum er ekki úr vegi að leyfa honum að velja
hvað hann vill fá að skoða, þetta er jú gönguferðin hans.
Með þessu erum við ekki að segja að hundurinn ætti að fá að vaða inn í alla garða sem
hann sér eða elta kettina sem hann finnur í runnunum í kring.
Hinsvegar er hægt að leyfa honum að skoða alla staurana og trén sem hann stoppar
við. Gefa honum tíma til að grandskoða og þefa eins og hann vill, kannski vill hann
fá að merkja staurinn líka. Lykilatriði í svona gönguferðum er að vera ekki að flýta sér
og ekki vera á leiðinni neitt sérstakt. Reynið að velja leið sem er með hlutum til að þefa af,
staurum, girðingum, trjám og öðru slíku.
Gönguferðin þarf ekki að vera löng, 15-20 mínútur eru oftast alveg nóg fyrir flesta.

Flestir hundar eiga sér bæli eða búr sem þeir sofa helst í, en hefur þú íhugað að hafa
fleiri en eitt bæli fyrir hundinn þinn?
Gott gæti verið að hafa bæli á nokkrum stöðum ef aðstaða er fyrir hendi.
Stundum vill hundurinn fá að velja hvort að hann sé hjá ykkur þegar þið horfið á sjónvarpið eða
eruð að vinna í tölvunni. Og stundum gæti hann kannski langað að fá að vera í friði til að hvíla sig.

Með því að að leyfa honum að velja þá ertu að gefa honum tækifæri til að taka
ákvörðun og hvetja hann til þess að njóta lífsins meira með því að gera og skoða
þá hluti sem HANN hefur áhuga á.

Um leið gæti verið að þú kynnist nýrri hlið á hundinum þínum og lærir að þekkja hann betur og efla og dýpka sambandið ykkar á milli.

Val hundsins